Eldri bylgjan bloggar Þankar Steinars Þorsteinssonar frá Norður Noregi
miðvikudagur, nóvember 17, 2004
Elskuleg systir mín, Kristín er kvödd.
Lilla var og er hún kölluð í minni fjölskyldu. Jóhanni fannst það ekki við hæfi, allavega ekki fyrst í stað. Kristín skyldi það vera og þegar áhersla var lögð, hét það ; Frú Kristín.
Hún átti vissulega erfitt síðust árin í sínum veikindum, líkamlegt þrek dvínaði en hugurinn skarpur til endaloka.
Eg kýs að minnast hennar sem hinnar lífsglöðu konu, sem með hlátri sínum, sem líktist helst hljóðinu úr stélfjöðrum hrossagauks þegar hann steypir sér, smitaði, svo að allir tóku undir, hver með sínu nefi.
Við höfðum bæði markað okkar stefnu í pólitík, vorum nokkurnvegin sammála Alþýðubandalaginu sáluga og kratastefna var fjarri okkur.
Þjóðfélagsumræður við Lillu eru minnisstæðar, ekki síst ef "Magga vinkona " var í húsi, Þá gat hitnað í kolunum.
Varla var Lilla spíritisti. Eg trúi því hinsvegar að hennar jarðneska orka sé í annarri vídd og hafi umbreyst í annarskonar orku. Eins og allir vita þá eyðist orka ekki!
Eg hugsa til Lillu og Jóhanns til Solveigar, Hrannar og Ernu, til Þorsteins og Katrínar, Kristínar, Péturs og Páls.