Eldri bylgjan bloggar
Þankar Steinars Þorsteinssonar frá Norður Noregi


sunnudagur, október 31, 2004  

Gaman að velta fyrir sér orðum, merkingu þeirra og gagnsæi.

Íslenskan hefur nokkra sérstöðu í samanburði við önnur tungumál, en skilur maður alltaf merkingu orðsins, eða er orðið gagnsætt?
Og þá aftur að vinnudeilum, verföllum og kjarasamningum. Þ.e. orðunum. Þau skýra sig sjálf, eru gagnsæ. Svo skýtur upp orðinu GERÐARDÓMUR, háfleygt orð sem gjarnan er notað þegar vinnudeilur enda í verkfalli sem kemur við kviku atvinnurekenda (og ríkisstjórnar). Ekki mjög gagnsætt orð nema nánari skýringar komi til. Mín útslitna orðabók menningarsjóðs gefur eftirfarandi skýringar; “Dómur, kveðinn upp af gerðarmönnum” og hvað er svo gerðarmaður, jú, í lögfræði er það “maður sem gerir um mál”. Eru menn einhverju nær? Er það ekki hinn eðlilegasti hlutur að þar til kveðnir gerðarmenn, (af Alþingi eða ríkisstjórn) kveði upp sinn dóm í deilu um kaup og kjör, til dæmis í deilu grunnskólakennara og sveitarstjórna?
Svo einfallt er málið þó ekki, enda virðast samningsaðilar vera sammála um að gerðardómur komi ekki til greina, þar sem slík gerð bryti gegn lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Einungis þegar fyrirséð er ástand sem yrði kallað “meiriháttar samfélagslegt áfall”, (acute national crisis) myndi réttlæta lagasetningu.
Slíkt ástand taldi norska ríkisstjórnin, nú á dögunum, að væri í uppsiglingu vegna verkfalls olíuverkamanna á borpöllum í Norðursjó. Vinnuveitendur með olíuauðhringana að baki hótuðu verkbanni (á norsku lockout, merkilegt nokk). Verkbann þýddi að öll olíuvinnsla stöðvaðist og norski ríkiskassinn yrði af einum og hálfum milljarði króna á dag, og ekki bara það, verð á olíu og bensíni myndi hækka á heimsmarkaði. Ekki það að óuppdæld olía hyrfi, hún bara er þarna. Hverjar voru svo hinar óaðgengilegu kröfur olíuverkamanna, ekki launakröfur, heldur krafa um að öll viðhalds og verkstæðisvinna skyldi unninn í Noregi og að verkafólk á norskum borpöllum skyldi vera í norsku stéttarfélagi. Kannast einhver við þessar aðstæður? Aftur að málnotkun og orðinu gerðardómur. Árið 1938 þegar lögin um stéttarfélög og vinnudeilur voru staðfest, samþykkti Alþingi gerðardóm í togaradeilu. Hermann Jónasson stýrði ríkisstjórn framsóknar og alþýðuflokks og var alþýðuflokksmaðurinn Haraldur Guðmundsson atvinnumálaráðherra. Frumvarpið var samþykkt með atkvæðum framsóknar og sjálfstæðisflokks og Haraldur sagði af sér sem ráðherra. Í “Öldin okkar” er sagt frá þessu og þar er talað um “lögþvingaðan gerðardóm”. Á norsku heitir þetta fyrirbæri “Tvunget lønnsnemd” og þá fer maður að skilja betur hina gerðarlegu menn.


posted by Steinar | 10/31/2004 08:47:00 e.h.
links
archives