Eldri bylgjan bloggar
Þankar Steinars Þorsteinssonar frá Norður Noregi


laugardagur, október 30, 2004  

Haustið hefur verið gott hér á 66,52° N, á Helgulandsströndinni.
Fyrsta frostnóttin var var 29. okt. Enn er snjólaust þótt sé farið að grána í fjöllum. ­Það haustar á norðurslóð og þegar dagsbirtan hverfur kemur þessi ólýsanlegi kvöldblái litur á himininn. Margir listamenn hafa málað þennan lit sem virðist óraunverulegur á léreftinu en er það svo sannarlega ekki þegar maður sér hann með eigin augum. Litaspil ljósaskiptanna er sannarlega ævintýralegt, eins og í gærmorgun um sexleytið stuttu fyrir dagrenningu; fjörðurinn spegill sem fullt túngl merlaði í og mitt í þessum spegli sigldi elsta “Hurtigrute” skipið, Lofoten, (á stærð við gamla Gullfoss) til hafnar á Ørnesi. Eg gleymdi að borða morgunskattinn og rankaði ekki við mér fyrr en dagsbirtan smó inn, hvundagsveruleikinn tók við og súrmjólkin rann ljúflega niður.

Eg skil Þuru mæta vel þar sem hún skrifar um samtökin “Heimili og skóli” (Hs) í pistli 26.okt.

Kannski mætti endurskoða hlutverk foreldrafélaga; Þau eru vissulega ólík öðrum félögum, gegnumstreymi er mikið, árlega koma nýir “félagsmenn” og álíka margir ganga út.
Áhersluatriði er ma. “samstarfs- og samstöðuvettvangur foreldra innbyrðis”, eins og segir á heimasíðu Hs. Innan þessa ramma ættu að vera atriði sem varða kjarabaráttu kennara og þar með talin verkföll, sem bitna ekki bara á nemendum, líka á foreldrum og aðstandendum. Þeir síðastnefndu ættu að vera ansi stór þrýstihópur og þá dugir varla að fleyta kertum á tjörninni.

Miðlunartillaga Ásmundar er kannski hans síðasta úrræði en mér finnst það misráðið að aflýsa verkfalli og kalla kennara til vinnu áðurenn tillagan er kynnt. Ef marka má fréttir úr Mogga þá er 100% samstaða kennara. Því hlýtur tillagan að verða felld.


posted by Steinar | 10/30/2004 02:27:00 e.h.
links
archives