Eldri bylgjan bloggar Þankar Steinars Þorsteinssonar frá Norður Noregi
laugardagur, október 23, 2004
Eg les í fréttum að slit séu í viðræðum verkfallsaðila í svokallaðri kennaradeilu. Kannski veit það á gott, trúlega þó tímabundið. Æðri máttarvöld (ríkisstjórnin) verða kölluð til og aukafjárveiting til sveitastjórnanna verður heimiluð og með þrýstingi á báða aðila leysist deilan með semingi , sérstaklega kennara.
Það eru tæplega 70 ár síðan sett voru lög um vekföll (lög um stéttarfélög og vinnudeilur) þ.e. að stéttarfélag geti lagt niður vinnu til að ná fram kjarasamningi. 70 ár er ekki ýkja langur tími, Á mínum uppvakstarárum í Hrísey voru flestir ungir karlmenn og á “besta aldri” stoltir einyrkjar, með sína trillu, réru til fiskjar, unnu við uppskipun eða útskipun þegar hentaði eða starfskraft vantaði. Að greiða í lífeyrissjóð eða eiga eitthvað sameiginlegt eins og stéttarfélag var víðsfjarri. Að tala um samstöðu var aldrei upp á borði. Hann Sigurjón afi minn, sem var sjómaður og meðal annars formaður á bát sem var í eigu hríseysks útgerðarbónda, fékk greidd laun í soðningu, átti ekki kost að borga í lífeyrisjóð, ekki fékk hann orlof, né rétt á neinu sem þykir sjálfsagður hlutur í nútíma samfélagi svo sem almannatryggingum. Fyrstu lögin um almannatr. voru sett 1936 eftir margra ára þref á þingi. Andstæðingar verkamanna héldu því fram í fullri alvöru að slík samfélagsleg þjónusta myndi ýta undir veikindi og leti.
Samstaða verkafólks í hinum ýmsu stéttarfélögum hefur náð hinum ýmsu kjarabótum með samningum eða grimmu stríði við atvinnurekendur (og ríkisstjórnir, oftast hliðhollar atvinnurekendum) og oft þurfti til verkföll.
Er virkilega einhver á móti því að kennarar fái 230 þús. í mánaðarlaun. Auðvitað bitnar þetta verkfall ekki einungis á grunnskólabörnum. Þeir sem argintætast út í verkfall kennara ættu að yfirfara söguna. Undirstéttir hafa alltaf þurft að sækja sinn rétt.
Hvernig væri að landsamtök foreldra, Heimili og Skóli, sem að vísu eru “frjáls félagasamtök”, hvað sem það svo þýðir, gerðust stéttarfélag og aðili að ASÍ og þar með stéttarfélag með réttindum og skyldum. Annar möguleiki er nýlegt dæmi héðan; Stjórnvöld ákváðu að flugumferðarstjórn skuli flytjast frá Oslo til Stavanger. Þetta hafði í för með sér svo mikið andlegt álag á starfsmenn að þeir lögðust veikir í tvo daga og þar með voru flugsamgöngur lamaðar. Þetta kom niður á ca. 60 þús. farþegum. Hvers áttu þeir að gjalda?
Foreldrar og forsjársmenn barna í verkfalli ættu umsvifalaust að leggja niður vinnu á sínum vinnustað, andlegt álag er nægjanleg ástæða.
Með baráttukveðjum.