Eldri bylgjan bloggar
Þankar Steinars Þorsteinssonar frá Norður Noregi


fimmtudagur, desember 23, 2004  

JÓLAKVEÐJA

Kæru vinir nær og fjær. Jóla og áramótakveðjur sendast að þessu sinni á netinu.
Sérstakar kveðjur fá systur mínar og þeirra fjölskyldur, frændfólk, tengdafólk og vinir og þeir sem lesa þetta. Síðan kemur hefðbundinn jólakortateksti,,,,,,,,,..........;
og undirskrift :
Steinar og Mariposted by Steinar | 12/23/2004 11:16:00 e.h.


laugardagur, desember 11, 2004  

Stórkostlegir tónleikar


í Oslo Spektrum í kvöld, til heiðurs Wangari Maathai, maður sat agndofa (næstum) í sjónvarpsstólnum. Framúrskarandi listafólk og svo verðlaunahafinn með fallegasta bros sem eg hef séð.

Það fer á því að IMAGINE Lennons er orðið friðarsöngur þorra mankyns


posted by Steinar | 12/11/2004 11:15:00 e.h.


miðvikudagur, nóvember 17, 2004  

Elskuleg systir mín, Kristín er kvödd.

Lilla var og er hún kölluð í minni fjölskyldu. Jóhanni fannst það ekki við hæfi, allavega ekki fyrst í stað. Kristín skyldi það vera og þegar áhersla var lögð, hét það ; Frú Kristín.

Hún átti vissulega erfitt síðust árin í sínum veikindum, líkamlegt þrek dvínaði en hugurinn skarpur til endaloka.

Eg kýs að minnast hennar sem hinnar lífsglöðu konu, sem með hlátri sínum, sem líktist helst hljóðinu úr stélfjöðrum hrossagauks þegar hann steypir sér, smitaði, svo að allir tóku undir, hver með sínu nefi.

Við höfðum bæði markað okkar stefnu í pólitík, vorum nokkurnvegin sammála Alþýðubandalaginu sáluga og kratastefna var fjarri okkur.
Þjóðfélagsumræður við Lillu eru minnisstæðar, ekki síst ef "Magga vinkona " var í húsi, Þá gat hitnað í kolunum.

Varla var Lilla spíritisti. Eg trúi því hinsvegar að hennar jarðneska orka sé í annarri vídd og hafi umbreyst í annarskonar orku. Eins og allir vita þá eyðist orka ekki!

Eg hugsa til Lillu og Jóhanns til Solveigar, Hrannar og Ernu, til Þorsteins og Katrínar, Kristínar, Péturs og Páls.


posted by Steinar | 11/17/2004 01:29:00 f.h.


sunnudagur, október 31, 2004  

Gaman að velta fyrir sér orðum, merkingu þeirra og gagnsæi.

Íslenskan hefur nokkra sérstöðu í samanburði við önnur tungumál, en skilur maður alltaf merkingu orðsins, eða er orðið gagnsætt?
Og þá aftur að vinnudeilum, verföllum og kjarasamningum. Þ.e. orðunum. Þau skýra sig sjálf, eru gagnsæ. Svo skýtur upp orðinu GERÐARDÓMUR, háfleygt orð sem gjarnan er notað þegar vinnudeilur enda í verkfalli sem kemur við kviku atvinnurekenda (og ríkisstjórnar). Ekki mjög gagnsætt orð nema nánari skýringar komi til. Mín útslitna orðabók menningarsjóðs gefur eftirfarandi skýringar; “Dómur, kveðinn upp af gerðarmönnum” og hvað er svo gerðarmaður, jú, í lögfræði er það “maður sem gerir um mál”. Eru menn einhverju nær? Er það ekki hinn eðlilegasti hlutur að þar til kveðnir gerðarmenn, (af Alþingi eða ríkisstjórn) kveði upp sinn dóm í deilu um kaup og kjör, til dæmis í deilu grunnskólakennara og sveitarstjórna?
Svo einfallt er málið þó ekki, enda virðast samningsaðilar vera sammála um að gerðardómur komi ekki til greina, þar sem slík gerð bryti gegn lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Einungis þegar fyrirséð er ástand sem yrði kallað “meiriháttar samfélagslegt áfall”, (acute national crisis) myndi réttlæta lagasetningu.
Slíkt ástand taldi norska ríkisstjórnin, nú á dögunum, að væri í uppsiglingu vegna verkfalls olíuverkamanna á borpöllum í Norðursjó. Vinnuveitendur með olíuauðhringana að baki hótuðu verkbanni (á norsku lockout, merkilegt nokk). Verkbann þýddi að öll olíuvinnsla stöðvaðist og norski ríkiskassinn yrði af einum og hálfum milljarði króna á dag, og ekki bara það, verð á olíu og bensíni myndi hækka á heimsmarkaði. Ekki það að óuppdæld olía hyrfi, hún bara er þarna. Hverjar voru svo hinar óaðgengilegu kröfur olíuverkamanna, ekki launakröfur, heldur krafa um að öll viðhalds og verkstæðisvinna skyldi unninn í Noregi og að verkafólk á norskum borpöllum skyldi vera í norsku stéttarfélagi. Kannast einhver við þessar aðstæður? Aftur að málnotkun og orðinu gerðardómur. Árið 1938 þegar lögin um stéttarfélög og vinnudeilur voru staðfest, samþykkti Alþingi gerðardóm í togaradeilu. Hermann Jónasson stýrði ríkisstjórn framsóknar og alþýðuflokks og var alþýðuflokksmaðurinn Haraldur Guðmundsson atvinnumálaráðherra. Frumvarpið var samþykkt með atkvæðum framsóknar og sjálfstæðisflokks og Haraldur sagði af sér sem ráðherra. Í “Öldin okkar” er sagt frá þessu og þar er talað um “lögþvingaðan gerðardóm”. Á norsku heitir þetta fyrirbæri “Tvunget lønnsnemd” og þá fer maður að skilja betur hina gerðarlegu menn.


posted by Steinar | 10/31/2004 08:47:00 e.h.


laugardagur, október 30, 2004  

Haustið hefur verið gott hér á 66,52° N, á Helgulandsströndinni.
Fyrsta frostnóttin var var 29. okt. Enn er snjólaust þótt sé farið að grána í fjöllum. ­Það haustar á norðurslóð og þegar dagsbirtan hverfur kemur þessi ólýsanlegi kvöldblái litur á himininn. Margir listamenn hafa málað þennan lit sem virðist óraunverulegur á léreftinu en er það svo sannarlega ekki þegar maður sér hann með eigin augum. Litaspil ljósaskiptanna er sannarlega ævintýralegt, eins og í gærmorgun um sexleytið stuttu fyrir dagrenningu; fjörðurinn spegill sem fullt túngl merlaði í og mitt í þessum spegli sigldi elsta “Hurtigrute” skipið, Lofoten, (á stærð við gamla Gullfoss) til hafnar á Ørnesi. Eg gleymdi að borða morgunskattinn og rankaði ekki við mér fyrr en dagsbirtan smó inn, hvundagsveruleikinn tók við og súrmjólkin rann ljúflega niður.

Eg skil Þuru mæta vel þar sem hún skrifar um samtökin “Heimili og skóli” (Hs) í pistli 26.okt.

Kannski mætti endurskoða hlutverk foreldrafélaga; Þau eru vissulega ólík öðrum félögum, gegnumstreymi er mikið, árlega koma nýir “félagsmenn” og álíka margir ganga út.
Áhersluatriði er ma. “samstarfs- og samstöðuvettvangur foreldra innbyrðis”, eins og segir á heimasíðu Hs. Innan þessa ramma ættu að vera atriði sem varða kjarabaráttu kennara og þar með talin verkföll, sem bitna ekki bara á nemendum, líka á foreldrum og aðstandendum. Þeir síðastnefndu ættu að vera ansi stór þrýstihópur og þá dugir varla að fleyta kertum á tjörninni.

Miðlunartillaga Ásmundar er kannski hans síðasta úrræði en mér finnst það misráðið að aflýsa verkfalli og kalla kennara til vinnu áðurenn tillagan er kynnt. Ef marka má fréttir úr Mogga þá er 100% samstaða kennara. Því hlýtur tillagan að verða felld.


posted by Steinar | 10/30/2004 02:27:00 e.h.


laugardagur, október 23, 2004  

Eg les í fréttum að slit séu í viðræðum verkfallsaðila í svokallaðri kennaradeilu. Kannski veit það á gott, trúlega þó tímabundið. Æðri máttarvöld (ríkisstjórnin) verða kölluð til og aukafjárveiting til sveitastjórnanna verður heimiluð og með þrýstingi á báða aðila leysist deilan með semingi , sérstaklega kennara.
Það eru tæplega 70 ár síðan sett voru lög um vekföll (lög um stéttarfélög og vinnudeilur) þ.e. að stéttarfélag geti lagt niður vinnu til að ná fram kjarasamningi. 70 ár er ekki ýkja langur tími, Á mínum uppvakstarárum í Hrísey voru flestir ungir karlmenn og á “besta aldri” stoltir einyrkjar, með sína trillu, réru til fiskjar, unnu við uppskipun eða útskipun þegar hentaði eða starfskraft vantaði. Að greiða í lífeyrissjóð eða eiga eitthvað sameiginlegt eins og stéttarfélag var víðsfjarri. Að tala um samstöðu var aldrei upp á borði. Hann Sigurjón afi minn, sem var sjómaður og meðal annars formaður á bát sem var í eigu hríseysks útgerðarbónda, fékk greidd laun í soðningu, átti ekki kost að borga í lífeyrisjóð, ekki fékk hann orlof, né rétt á neinu sem þykir sjálfsagður hlutur í nútíma samfélagi svo sem almannatryggingum. Fyrstu lögin um almannatr. voru sett 1936 eftir margra ára þref á þingi. Andstæðingar verkamanna héldu því fram í fullri alvöru að slík samfélagsleg þjónusta myndi ýta undir veikindi og leti.
Samstaða verkafólks í hinum ýmsu stéttarfélögum hefur náð hinum ýmsu kjarabótum með samningum eða grimmu stríði við atvinnurekendur (og ríkisstjórnir, oftast hliðhollar atvinnurekendum) og oft þurfti til verkföll.

Er virkilega einhver á móti því að kennarar fái 230 þús. í mánaðarlaun. Auðvitað bitnar þetta verkfall ekki einungis á grunnskólabörnum. Þeir sem argintætast út í verkfall kennara ættu að yfirfara söguna. Undirstéttir hafa alltaf þurft að sækja sinn rétt.

Hvernig væri að landsamtök foreldra, Heimili og Skóli, sem að vísu eru “frjáls félagasamtök”, hvað sem það svo þýðir, gerðust stéttarfélag og aðili að ASÍ og þar með stéttarfélag með réttindum og skyldum. Annar möguleiki er nýlegt dæmi héðan; Stjórnvöld ákváðu að flugumferðarstjórn skuli flytjast frá Oslo til Stavanger. Þetta hafði í för með sér svo mikið andlegt álag á starfsmenn að þeir lögðust veikir í tvo daga og þar með voru flugsamgöngur lamaðar. Þetta kom niður á ca. 60 þús. farþegum. Hvers áttu þeir að gjalda?
Foreldrar og forsjársmenn barna í verkfalli ættu umsvifalaust að leggja niður vinnu á sínum vinnustað, andlegt álag er nægjanleg ástæða.
Með baráttukveðjum.


posted by Steinar | 10/23/2004 06:00:00 e.h.


föstudagur, júní 18, 2004  


Við hjónin eru bókaormar og lesum töluvert. Ekki skortir efnivið og yfirleitt les maður (eg) bækur af áhuga á efninu. Skáldsögur, ljóð metur maður með sjálfum sér og það mat fer trúlega eftir þroska einstaklingsins. Æfisögur , svokallaðar, skrifaðar annnaðhvort af skrásetjara eða höfundi sjálfum ættu að vera trúverðugar, þó með fyrirvara. Reynslusögur geta verið skemmtilegar svo og blaðagreinar svo ekki sé minst á blogg. Allar fræðibækur, þar með taldar kennslubækur ættu að lesast með gagnrýni, þá sér í lagi mankynsagan , sú sem er matreidd fyrir okkur vesturlandabúa.

(Jawaharlal Nehru (1889-1964), forsætisráðherra Indlands (1947-1964) sat í fangelsi 1930 til 1934 og skrifaði allmörg bréf til dóttur sinnar Indiru Gandhi. Bréfin urðu að mankynssögubók,” ”Glimpses of World History, tímabilið frá 6000 fyrir krist til 1935, séð með öðrum augum en vestrænum. Þetta var innskot og kemur aðalefni lítið við)

Af hverju er eg með þessar vangaveltur. Það er auðvitað út af einni bók sem eg hef nýlokið við að lesa. Bók sem kona mín fékk í afmælisgjöf á dögunum frá vinafólki okkar. Konan læknir, þýsk og maðurinn íranskur verkfræðingur, bæði höfðu lesið bókina og fannst hún frábær. Bókin, “Mutant Message Down Under” kom út í Ameríku 1991 og varð “underground bestseller”.
Höfundurinn; MARLO MORGAN, læknir um fimmtugt þegar bókin var skrifuð, segir í inngangi að bókin sé skrifuð út frá raunverulegri reynslu og þekkingu. Hún segir frá óvæntu, óundirbúnu og æfintýralegu ferðalagi,(Walkabout, sem gæti útleggst sem: ferð án fyrirheits) um óbyggðir og auðnir Ástralíu í “boði” eins ættbálks frumbyggja álfunnar, Aborigina. Þeir kalla sig “hina einu sönnu”, eða eins og bókin heitir á norsku, “Det virkelige folket”. Bókin var skemmtileg aflestrar framan af og nokkuð merkileg, að mér fannst og boðskapurinn var náttúruvernd. “Við erum að eyðileggja hnöttinn okkar, Jörðina”.

Eg tel mig fylgjast nokkuð vel með fréttum og hugsaði; skrýtið að þessi “merkilega ferð” hafi ekki fengið athygli. Höf. fannst auðveldlega á veraldarvefnum og var það ekki skemmtileg lesning.
Mín hugsun; Er ekki hægt að segja sínar skoðanir án þess að ljúga?
posted by Steinar | 6/18/2004 12:40:00 f.h.
links
archives